Saga 1912
-
1912
Nathan & Olsen var stofnað þann 1. janúar árið 1912 af tveimur dönskum athafnamönnum, þeim Fritz Nathan og Carl Olsen. Fyrirtækið var með starfsemi í Hafnarstræti 21. Rekstur fyrirtækisins gekk vel fyrstu árin og starfsemi þess varð bæði víðtæk og blómleg. Reksturinn fólst jöfnum höndum í inn- og útflutningi, þar sem landbúnaðar- og fiskafurðir voru fluttar út og ýmsar nauðsynjavörur fluttar inn. Fyrirtækið starfrækti útibú víða um land og átti um tíma flutningaskip í siglingum milli hafna innanlands og erlendis.
-
1914
John Fenger var meðeigandi að fyrirtækinu en það er nú í eigu afkomenda hans. Sama ár hófst heimsstyrjöldin fyrri. Árið 1916 tók Nathan & Olsen til við að reisa fyrsta stórhýsið í Reykjavík að Austurstræti 16. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og þykir enn mjög glæsilegt. Þess má einnig geta að þetta var fyrsta húsið í Reykjavík sem lýst var með rafmagnsljósum.
-
1915
Í brunanum mikla í Austurstræti 25. apríl 1915 brann allt sem brunnið gat í skrifstofuhúsnæði Nathan & Olsen á eftir hæðinni í Austurstræti 9.
Fyrirtækið leigði gufuskip til flutninga til og frá landinu árið 1915 og nokkru síðar keypti fyrirtækið sitt eigið skip, mótorkútterinn Harry, sem var í millilandasiglingum og strandferðum.
-
1917
15. september 1917 fluttist Nathan & Olsen í stórhýsið sem eigendurnir létu reisa við Austurstræti 16. Félagarnir komu m.a. upp rafstöð, þeirri fyrstu í Reykjavík.
FYRSTA RAFSTÖÐIN Í REYKJAVÍK
-
1924
Fyrirtækið hafði útibú á Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði. 1920-1923 voru erfiðleikaár og auk þess fórst Harry, ótryggður. Árið 1924 varð því að selja stórhýsið og eignir á Ísafirði.
-
1936
Fritz Nathan seldi sinn hlut í fyrirtækinu árið 1936 og Carl Olsen seldi sinn hlut árið 1958. Fyrirtækið hefur síðan verið í eigu afkomenda Johns Fengers.
-
1941
Sú stefnubreyting var, í ljósi aðstæðna, að hætta útflutningi á landbúnaðar- og sjávarafurðum og einbeita sér að innflutningi. Síðari heimstyrjöldin var þá í algleymingi. Þann 7. júlí kom bandarískt herlið til landsins og leysti af hervernd Breta sem höfðu hertekið landið árið áður. Mikill uppgangur fylgdi komu Bandaríkjamanna og hagur landsmanna vænkaðist. Aukinn innflutningur Nathan & Olsen var því heppilega tímasettur, í takt við aukna kaupgetu almennings.
-
1942
Nathan & Olsen opnaði skrifstofu í New York sem starfaði þar út stríðið enda voru leiðir milli landa í Evrópu lokaðar vegna átakanna. Á þessum árum voru fundin mörg vörumerki sem áttu eftir að verða miklir heimilisvinir íslenskra heimila allt til dagsins í dag.
-
1968
Árið 1968 fluttist Nathan & Olsen í nýtt húsnæði sem fyrirtækið hafði reist sér að Ármúla 8. Matvara, búsáhöld og umboðssala á byggingavörum voru helstu áhersluþættir starfseminnar um þetta leyti og fram á seinni hluta 9. áratugarins.
-
1988
Ákveðið var að fyrirtækið einbeitti sér að innflutningi á matvörum og hætti innflutningi og umboðsverslun með aðrar vörur. Starfsemin var þetta ár flutt í húsnæði að Vatnagörðum 20.
-
1994
Þetta ár hófst tími uppkaupa. Breyttir tímar á markaði þrýstu á þörfina að stækka fyrirtækið og auka þannig hagkvæmni og styrkja stoðirnar enn frekar.
INNVIÐA-UPPBYGGING
-
1999
Ákveðið var að skipta rekstri fyrirtækisins í nokkrar einingar. Heildsölufyrirtækið Ekran ehf. var keypt og sameinað stóreldhúsadeild Nathan & Olsen undir nafni Ekrunnar. Jafnframt var Nathan & Olsen skipt upp í þrjú félög, þ.e. markaðsfyrirtækið Nathan & Olsen, eignarhaldsfélagið 1912 og fasteignafélagið Sökkla. Útibú Ekrunnar var staðsett á Óseyri 3 á Akureyri.
-
2008
Öll starfsemi í Reykjavík var flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði að Klettagörðum 19.
-
2012
Á 100 ára afmæli fyrirtækisins árið 2012 var 1912 ehf. orðið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í heildverslun með dagvöru. Í gegnum dótturfélög sín Nathan & Olsen hf. og Ekruna ehf. bjó félagið nú yfir öflugum dreifileiðum til smásöluaðila, stóreldhúsa, iðnaðar og fríverslunar með kost.
-
2013
Ákveðið var að grípa tækifærið til frekari stækkunar og keypti 1912 rekstur með mörgum þekktum vörumerkjum á snyrtivörumarkaði. Bætt var við fjölda starfsfólks og nýtt svið var stofnað, þ.e. snyrtivörusvið Nathan & Olsen.
-
2017
Ekran keypti rekstur Íslenskra Matvara ehf. en kaupin voru stór skref í að þróa enn frekar heildarlausnir fyrir stóreldhús og auka þjónustu við viðskiptavini.
-
2019
Árið 2019 bætti 1912 við sig þriðju stoðinni með því að kaupa meirihluta í Emmessís. Með kaupunum opnuðust tækifæri til að nýta betur uppsett afl samstæðunnar og að auka vöruframboð í frostvöru.
Í DAG
Nú er 1912 leiðandi fyrirtæki á íslenskum matvörumarkaði og dótturfélögin Nathan & Olsen, Ekran og Emmessís þjóna neytendum og fyrirtækjum með fjölbreyttu vöru- og þjónustuúrvali.